Þau 9 lið sem tryggðu sér áframhaldandi keppnisrétt í Suðurlandsdeildinni 2018 hafa tilkynnt að þau muni halda áfram. Því eru laus til umsóknar sæti fyrir 3 lið í Suðurlandsdeildinni 2018 sem hefur göngu sína að nýju eftir áramót í Rangárhöllinni á Hellu.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa að sækja um sem fyrst en Umsóknarfrestur er til 25. október og skal skila umsóknum á rangarhollin@gmail.com.
Ein breyting hefur orðið á reglum Suðurlandsdeildar frá síðasta tímabili. Nú mega liðin skrá til leiks 2 eða 3 atvinnumenn ef þau kjósa svo. Áfram munu 2 atvinnumenn og 2 áhugamenn keppa í hvert sinn. Liðsskipan þarf að vera á hreinu fyrir 15. nóvember og þurfa liðin þá að hafa ákveðið hvort liðið er skipað 5 eða 6 knöpum. Engar breytingar verða leyfðar eftir þann tíma.
Ef fleiri en 3 lið sækja um verður dregið úr innsendum umsóknum.
Keppnisgreinarnar eru fjórar. Fjórgangur, fimmgangur, tölt og parafimi.
Suðurlandsdeildin er samstarfsverkefni Hestamannafélagsins Geysis og Rangárhallarinnar.
Skráningargjald er 130.000 kr.
—
UM SUÐURLANDSDEILDINA
Deildin er liðakeppni þar sem keppa 10-12 lið. Hvert lið á að skipa 2-3 atvinnumönnum og 3 áhugamönnum, tveir atvinnumenn og tveir áhugamenn keppa í hvert sinn. Liðin safna stigum og stendur það lið uppi sem sigurvegari sem flest stig hlýtur eftir mótin fjögur. Liðum er valfrjálst að skrá 2 eða 3 atvinnumenn (lið getur verið skipað 5 eða 6 knöpum) en sú skráning þarf að hafa farið fram fyrir auglýstan frest um liðsskipan hvers liðs fyrir hvert tímabil. Eftir að liðsskipan liðsins hefur verið send stjórn Suðurlandsdeildar verða engar breytingar á liðum leyfðar.
Atvinnumenn / Áhugamenn
Miðað er við að atvinnumenn séu allir þeir sem hafa keppt í 1. flokk (oftar en 3svar í sömu grein) eða meistaraflokk á keppnisárinu 2017. Áhugamenn séu allir aðrir. Á hverjum viðburði keppa tveir atvinnumenn og tveir áhugamenn. Áhugamenn mega keppa í flokki atvinnumanna en ekki öfugt. Hver knapi má aðeins vera skráður í eitt lið. Stjórn Suðurlandsdeildarinnar þarf að samþykkja liðsskipan og getur gert athugasemdir sem þarf að bregðast við.
Það verða fimm dómarar. Þrír knapar eru inná í einu. Að forkeppni lokinni verða tvenn A-úrslit. A-úrslit atvinnumanna og A-úrslit áhugamanna nema í parafimi verða ein úrslit. Bæði úrslit gefa jafn mörg stig. Stig eru reiknuð samkvæmt lokaniðurstöðu hverrar keppni. Með þessu móti hafa allir knapar jafnt vægi innan liðsins. Deildin verður haldin á þriðjudögum.
—
Öllum fyrirspurnum er svarað á rangarhollin@gmail.com.
F.h. Stjórnar Suðurlandsdeildarinnar
Eiríkur Vilhelm Sigurðarson