Á HSK þingi sem fram fór á Hellu fimmtudaginn 23. mars s.l. hlaut Hestamannafélagið Geysir foreldrastarfsbikar HSK.
Í hestamennsku barna, unglinga og ungmenna gegna foreldrar lykilhlutverki. Stuðningur foreldra skiptir öllu máli þar sem eðli hestamennsku sem íþróttagreinar er töluvert ólíkt öðrum. Hesturinn gegnir lykilhlutverki og þarf að hugsa um hann jafnt og knapann öllum stundum. Virk þátttaka foreldra styður það að börn, unglingar og ungmenni nái árangri í íþróttinni. Erfitt getur reynst að fá far á æfingu þar sem hesturinn þarf að koma með og ekki sest hann afturí heldur þarf hann að koma á kerru. Hestamennsku fylgir mikill búnaður sem einnig þarf að ferja.
Í hestamannafélaginu Geysi hafa foreldrar verið virkilega áberandi og virkir þátttakendur í starfinu. Á mótum síðasta árs voru knapar Geysis áberandi í flokkum barna, unglinga og ungmenna og hefði sá árangur ekki náðst nema með virkri þátttöku foreldra.
Takk foreldrar fyrir að vera til staðar!