Öllum félögum frá Hestmannafélaginu Geysi, alla leið austur og svo norður á Dalvík er boðin þátttaka á mótinu og vona mótshaldarar að sem flestir sjái sér fært að mæta og upplifa gott mót þar sem góð hross og gott fólk kemur saman með það sama markmið að njóta og hafa gaman.
Fjórðungsmót Austurlands verður haldið á Stekkhólma, félagssvæði hestamannafélagsins Freyfaxa dagana 6-9 júlí 2023. Félagssvæðið er 12 km frá Egilsstöðum en þangað er hægt að sækja flest alla þjónustu.
Gæðingakeppnin er aðalgrein mótsins en auk hennar verður einnig opin töltkeppni og 100 metra skeið. Mótið kemur til með að byrja með kynbótadómum og verður skráning í kynbótadóm öllum opin.
Mótshaldarar hafa lofað góðu veðri þess daga og því ekki seinna vænna fyrir hestafólk um allt land að undirbúa sig vel strax fyrir ferðalagið.
Mótssvæðið í Stekkhólmi er staðsett 12 kílómetra frá Egilsstöðum. Mikilvægt er að kynna sér strax hvaða gistimöguleikar eru í boði, því viðbúið er að eftirspurn verði mikil á þessum tíma vegna aukins ferðamannastraums á ný eftir kórónuárin.
Fyrsti möguleikin á gistingu er að sjálfsögðu gamla góða tjaldið, en í Stekkhólma félagssvæði Freyfaxa eru ágætis tjaldstæði með pláss fyrir mikinn fjölda. Hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar eru að sjálfsögðu algengari og að sjálfsögðu nóg pláss fyrir þau líka. Tjaldstæði á mótssvæðinu eru mjög hagkvæm lausn enda innifalið í miðaverði.
Fyrir utan tjaldstæðið í Stekkhólma eru prýðistjaldstæði í grenndinni, sem hægt er að bóka fyrirfram. Brögð hafa verið á því á heitum sumrum að uppselt hefur verið á betri tjaldstæðunum á Fljótsdalshéraði og því betra að plana fram í tímann.
- Á Egilsstöðum 12km er prýðistjaldstæði sem hægt er að bóka fyrirfram á www.tjalda.is
- Í Hallormsstað sem er jafn langt frá mótssvæðinu í hina áttina er einnig rómað tjaldstæði sem einnig er hægt að bóka fyrirfram. Svo mætti nefna aðra nálæga staði eins og Mjóanes, Stóra Sandfell og Skipalæk.
Félagar í hinum ýmsu Verkalýðsfélögum og starfsmannafélögum gætu einnig kannað með möguleika á sumarbústað á Fljótsdalshéraði í eigu orlofsdeilda. Hótel, gistihús og íbúðaeiningar á ferðamannamarkaði eru þegar mikið umsetnar og því ráðlegt fyrir þá sem hafa huga á að næla sér í gistingu á þeim markaði að vera með mjög vakandi auga. Að sjálfsögðu er hægt að vakta bændagistingu, airbnb, booking, expedia og allar þær bókunarþjónustur sem eru í boði.
Sérstakur gistifulltrúi hefur verið tilnefndur af framkvæmdanefnd Fjórðungsmóts og ef einhverjar spurningar, upplýsingar eða sem hægt er að veita varðandi gistingu mun sá aðili svara því samviskusamlega – endilega hafið samband í gegnum netfangið fm@freyfaxi.is