Við erum gríðarlega stolt af þeim Geysis félögum sem valin hafa verið til þess að fara fyrir Íslandshönd á Heimsmeistaramót Íslenska hestsins í Hollandi nú í ágúst. Ekkert annað félag á jafn marga fulltrúa í hópnum en Geysis félagar eru 6 af 15  og gerir það okkur svo sannarlega stolt. Þrjú af sex kynbótahrossum eru ræktuð af Geysisfélögum og landsliðsþjálfararnir Sigurbjörn Bárðarson og Hekla Katharína Kristinsdóttir eru bæði í Geysi.

Læt umsagnir um þau frá kynningu Landsliðsins í Öskju fylgja.

Í hópi U-21 árs þá er það

Jón Ársæll Bergmann

Frár frá Sandhól fjórgangur V1 og tölt T1

Jón Ársæll og Frár eru Íslandsmeistarar í fjórgangi, tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum í ungmennaflokki. Þetta par kom fyrst fram á WR móti Geysis þar sem þeir sigruðu fjórgang og hafa síðan vaxið saman fram að Íslandsmóti þar sem þeir náðu frábærum árangri. Frár er hátt dæmdur stóðhestur með frábærar gangtegundir. Jón Ársæll er keppnisknapi í fremstu röð og er fjórfaldur Íslandsmeistari í ungmennaflokki.

Herdís Björg Jóhannsdóttir

Kvarði frá Pulu tölt T1

Herdís Björg og Kvarði urðu Íslandsmeistarar í tölti unglinga árið 2022 og sigruðu T1 ungmenna á Íslandsmótinu á Selfossi fyrr í sumar. Þau hafa á síðastliðnu ári vaxið mikið í tölti og náð frábærum árangri saman. Kvarði er flugrúmur og kattliðugur töltari og Herdís, sem alla jafna keppir í unglingaflokki, er að sanna sig sem keppnisknapi í fremstu röð.

Í hópi fullorðinna þá eru það:

Elvar Þormarsson

Fjalladís frá Fornusöndum gæðingaskeið PP1

Elvar og Fjalladís eru Íslandsmeistarar í gæðingaskeiði undanfarin tvö ár og sigurvegar í sömu grein á Landsmóti 2022. Fjalladís er framúrskarandi í gæðingaskeiði, teknísk og fljót á skeiði með frábærar niðurhægingar.

Hans Þór Hilmarsson

Jarl frá Þóroddsstöðum 250m skeið P1 og 100m skeið P2

Hans Þór og Jarl eru vaxandi par í skeiðgreinum og hafa jafnt og þétt verið að bæta tíma sína síðastliðin tvö ár. Jarl er orðinn einn alfljótasti skeiðhestur í heiminum um þessar mundir í 250 m skeiði.

Sara Sigurbjörnsdóttir

Flóki frá Oddhóli fimmgangur F1

Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki hafa staðið í fremstu röð í fimmgangi undanfarin ár og voru meðal annars Reykjavíkurmeistarar, Landsmótssigurvegarar og Íslandsmeistarar í greininni árið 2022. Flóki er jafnvígur og sterkur fimmgangshestur mer úrvalsgott skeið í fimmgangi.

Guðmundur Björgvinsson

Brimir frá Varmadal gæðingaskeið PP1

Guðmundur og Brimir hafa árinu verið að stimpla sig inn í hóp sterkustu para í gæðingaskeiði.

Kynbótahross

Í hópi kynbótahrossa þá koma þrjú af sex úr Rangárvallasýslu.

Hrönn frá Fákshólum ræktuð af Helgu Unu Björnsdóttur og Sigurbjörgu Geirsdóttur fer fyrir hóp sex vetra hryssna.

Katla frá Hemlu II ræktuð af Önnu Geirsdóttur og Vigni Siggeirssyni fer fyrir hóp sjö vetra hryssna.

Geisli frá Árbæ ræktaður af Gunnari Andrés Jóhannssyni og Vigdísi Þórarinsdóttur fer fyrir hópi sex vetra stóðhesta.

Við óskum knöpum og ræktendum innilega til hamingju og það verður virkilega spennandi að fylgjast með hópnum á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins.