Frábær árangur Rangæinga á Heimsmeistaramóti Íslenska hestins í Hollandi
Heimsmeistaramót Íslenska hestsins fór fram í Hollandi 8. – 13. ágúst. Rangæingar standa gríðarlega framarlega í keppni og hrossarækt og sýndi það sig á heimsmeistaramótinu að hér er svo sannarlega mekka hestamennskunnar á Íslandi.
Í flokki ungmenna þá varð Jón Ársæll Bergmann á hesti sínum Frá frá Sandhól heimsmeistari í fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum. Jón Ársæll býr í Bakkakoti. Þá varð Herdís Björg Jóhannsdóttir á Kvarða frá Pulu heimsmeistari í Tölti. Herdís er búsett í Pulu í Landsveit.
Í flokki fullorðinna þá varð Elvar Þormarsson á hryssunni Fjalladís frá Fornusöndum tvöfaldur heimsmeistari í Gæðingaskeiði og 250m skeiði og urðu þau í 4.-5. sæti í 100m skeiði. Elvar býr á Hvolsvelli. Jóhanna Margrét Snorradóttir á Bárði frá Melabergi varð einnig tvöfaldur heimsmeistari en þau eru heimsmeistarar í Tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum. Einnig urðu þau í öðru sæti í fjórgang. Jóhanna Margrét býr á Árbakka. Sara Sigurbjörnsdóttir varð heimsmeistari í fimmgangi á hesti sínum Flóka frá Oddhól. Sara býr í Oddhól. Hans Þór Hilmarsson varð í sjötta sæti í 250m skeiði og 4.-5. sæti í 100m skeiði á Jarli frá Þóroddsstöðum. Hans Þór býr á Hvolsvelli. Þorgeir Ólafsson á Goðasteini frá Haukagili Hvítársíðu sigraði B-úrslit og endaði í sjötta sæti. Þorgeir býr í Sumarliðabæ.
Af þeim sex kynbótahrossum sem fóru á mótið þá eru þrjú úr Rangárþingi. Hrönn frá Fákshólum ræktuð af Helgu Unu Björnsdóttur, Sigurbjörgu Geirsdóttur og Jóni Eiríkssyni, Geisli frá Árbæ ræktaður af Vigdísi Þórarinsdóttur og Gunnari Andrési Jóhannssyni og Katla frá Hemlu II ræktuð af Önnu Kristínu Geirsdóttur og Vigni Siggeirssyni. Öll sigruðu þau sína flokka með yfirburðum. Af sex kynbótaknöpum þá eru fjórir búsettir í Rangárþingi en það eru Árni Björn Pálsson (Oddhól), Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir (Margrétarhofi), Jakob Svavar Sigurðsson (Fákshólum), Þorgeir Ólafsson (Sumarliðabæ).
Járningamaður liðsins er Erlendur Árnason, Skíðbakka.
Landsliðsþjálfararnir Hekla Katharína Kristinsdóttir (Árbæjarhjáleigu II) og Sigurbjörn Bárðarson (Oddhól) eru einnig bæði búsett í Rangárþingi.
Það má því með sanni segja að Rangæingar standi gríðarlega framarlega í ræktun og keppni á Íslenska hestinum á heimsmælikvarða.
Til hamingju öll!