Aðalfundur Geysis fór fram mánudaginn 7. apríl.

Stjórn félagsins skipa:

Aðalstjórn:
Eiríkur Vilhelm Sigurðarson (formaður)
Sóley Margeirsdóttir
Guðmundur Björgvinsson
Hulda Dóra Eysteinsdóttir
Carolin Böse

Vara-stjórn:
Lárus Jóhann Guðmundsson
Edda Thorlacius Sigurðardóttir

Aðalfundur Hestamannafélagsins Geysis 2025

Haldinn í Rangárhöllinni 14. apríl 2025 klukkan 20:00

mættir 18 fundargestir.

Dagskrá:

  1. Kosning fundarritara og fundarstjóra.

Stungið upp á Antoni Kára Halldórssyni sem fundarstjóra og Guðnýju H. Indriðadóttur sem fundarritara og það samþykkt með lófaklappi.

  1. Skýrsla stjórnar – Eiríkur Vilhelm Sigurðarson formaður flutti skýrslu stjórnar. Mikið líf var í starfi félagsins á árinu. Félagið sendið 50 fulltrúa á landsmót í Reykjavík og átti m.a. 3 efstu sætin í barnflokki. Félagið var áberandi á landsmóti og var vel tekið eftir græna Geysis jakkanum í braut. Félögum í félaginu fjölgar og er það vel. Skýrsla stjórnar samþykkt.
  2. Skýrslur nefnda
  • Bygginganefnd – Lárus Jóhann Guðmundsson fól Sóley Margeirsdóttur að fara yfir helstu mál bygginganefndar, sem sér um framkvæmdir á vegum Geysis inni í Rangárhöllinni þar sem verið er að byggja aðstöðu fyrir félagið.
  • Vetrarmótanefnd – Eiríkur Vilhelm Sigurðarson flutti skýrslu fyrir hönd Erlendar Árnasonar. Þrjú vetrarmót voru haldin að venju og voru vel sótt.
  • Fræðslunefnd – Ólafur Andri Guðmundsson flutti skýrslu nefndar. Illa gekk að koma fyrirlestrum á dagskrá. Fyrirlestur með Súsý var á Hvolsvelli og var það vel sótt.
  • Æskulýðsnefnd – Eiríkur Vilhelm Sigurðarson flutti skýrslu fyrir hönd Ölmu Gullu Matthíasdóttur sem forfallaðist á síðustu stundu. Mikið og gott starf er á vegum æskulýðsnefndar. Mikið námskeiðahald bæði tengt og ótengt keppni, fjölskyldu reiðtúr o.fl. Árangur yngri knapa Geysis á landsmóti var glæsilegur svo eftir var tekið.
  • Skemmtinefnd – Eiríkur Vilhelm Sigurðarson flutti skýrslu fyrir hönd Ástu Björnsdóttur formanns nefndar. Nefndin hélt folaldasýningu, pub quiz, Meistaradeildarkvöld í Rangárhöllinni og þátttaka í Uppskeruhátíð Geysis, og stefnt er að því áfram.
  • Mótanefnd – Sóley Margeirsdóttir flutti skýrslu nefndar. Nefndin hélt utan um mótahald sumarsins. Mótahald getur verið strembið og mannfrekt, og íþyngjandi að manna síðustu mót sumarsins. Mótahaldið sjálft gengur vel og mótin vel sótt.
  • Reiðveganefnd – Kristín Bjarnadóttir flutti skýrslu nefndar. Fé til framkvæmda var um 7,5 milljón. Unnið var í reiðvegum við Köldukinn, Heiði, Austvaðsholt og við Hvolsvöll, ásamt því sem unnið var að viðhaldi á áningarhólfum. Varið að vinna í að finna lausnir til að auka öryggi á leið yfir Þjóðveg nr. 1 við Hvolsvöll. Þar er umferð mjög þung og brýnt að auka öryggi ríðandi fólks. Stikaður var svokallaður Dalastígur, leið úr Dalakofa í Landmannahelli Þar sem lagt er bundið slitlag skal leggja reiðfæran slóða en allur gangur er á því hvernig gengið er frá því. Áfram verður unnið að því að vinna við vöð á Ytri-Rangá bæði við Helluvað og Kaldbak.
  • Rangárhöll / Rangárbakkar – Gústav Magnús Ásbjörnsson fór yfir helstu mál er varða þessi tvö félög. Rangárbakkar sjá um Gaddstaðaflatir fyrir utan Rangárhöllina, en hún stendur alveg sér. Rangárbakkar skrifuðu undir samning um landsmót 2028 sem verður haldið á Gaddstaðaflötum. Rangárhöllin heldur Skötuveislu, Stórsýningu sunnlenskra hestamanna og Suðurlandsdeildina, í samstarfi við Geysi, til fjáröflunar fyrir húsið.
  • Skeiðvangur – Eiríkur Vilhelm Sigurðarson flutti skýrslu fyrir hönd Úlfars Albertssonar. Geysir nýtir húsið nokkuð mikið til námskeiðahalds. Úlfar lofar því að klósettmál verði kláruð á árinu.
  1. Endurskoðaður ársreikningur – Eiríkur Vilhelm Siguðarson fór yfir reikninga félagsins. Eigið fé í árslok 2024 voru 72 milljónir. Rekstrarafgangur um 500.000 kr. Reikningar samþykktir samhljóða
  2. Ákvörðun árgjalds til eins árs – tillaga um óbreytt árgjald 10.500 kr samþykkt samhljóða
  3. Lagabreytingar – engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum
  4. Aðrar tillögur sem eru til afgreiðslu á fundinum

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir mælir fyrir tillögu um að Hestamannafélagið Geysir stofni öryggisnefnd eða í það minnsta öryggisfulltrúa. Samþykkt samhljóða að stofnuð verið öryggisnefnd innan Geysis

  1. Kosningar skv. 9. gr

Kosið verður um formann, tvo aðalmenn til tveggja ára og einn aðalmann til eins árs þar sem Marta Gunnarsdóttir hefur beðist undan áframhaldandi setu, eftir 5 ár í stjórn. Einnig skal kosið um tvo varamenn til eins árs.

  • Formaður: Sitjandi formaður Eiríkur Vilhelm Siguðarson gefur kost á sér til áframhaldandi setu. Samþykkt samhljóða.
  • Aðalstjórn: Carolin Böse gefur kost á sér til setu í aðalstjórn til tveggja ára. Samþykkt samhljóða
  • Aðalstjórn: Guðmundur Björgvinsson gefur kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn til tveggja ára. Samþykkt samhljóða
  • Aðalstjórn: Hulda Dóra Eysteinsdóttir kost á sér til setu í aðalstjórn til eins árs. Samþykkt samhljóða
  • Varastjórn: Edda S. Thorlacius gefur kost á sér til setu sem varamaður í stjórn til eins árs. Samþykkt samhljóða
  • Varastjórn: Lárus Jóhann Guðmundsson gefur kost á sér til setu sem varamaður í stjórn til eins árs. Samþykkt samhjóða
  • Skoðunarmaður reikninga Þröstur Sigurðsson gefur kost á sér áfram. Samþykkt samhljóða

Önnur mál

  • Kristín Bjarnadóttir hvaddi sér hljóðs og sýndi fundargestum myndasýningu af framkvæmdum reiðveganefndar á Dalastíg að Fjallabaki. Í leiðangurinn fóru tvær manneskjur með tvo klifjahesta 26 og 17 vetra, vopnuð sleggju og kúbeini. Verkið tók tvo daga og fengu hestarnir frí seinni daginn og var Valtýr notaður í stað klifjahests þann daginn. Kristín segir það alls ekki ráðlegt að fara þessa leið án þess að hafa staðkunnuga með sér þar sem mjög villugjarnt geti verið þó veður sé gott og bjart yfir.
  • Stjórn vill ræða sérstaklega mótahald félagsins undir þessum lið. Fjölga þarf í mótanefnd til að geta dreift álaginu og skipt mótum á milli fólks.

Fundi slitið 21:45.